miðvikudagur, mars 26, 2008

Sjáið hvað ég fann

Þegar ég var að skoða á netinu.

Inn á IMDB fann ég upplýsingar um þáttarröð sem ég vann við þegar ég var stelpa. Þættirnir voru teknir upp sumarið '94 og við sáum um hrossin í þáttunum. Serían kom svo út '95 og greinilega aftur '97. Og hún er inn á IMDB, sjáiði bara hérna

Annars er bara allt gott að frétta af mér. Páskarnir búnir og prófin framundan. Ég fór með DÍ á Krók á föstudaginn langa í dagsæfingu, og það var ekkert smá gaman. Við renndum í gegnum bronspróf og náðum að taka upp nokkra hunda. Fluga sýndi mér að henni finnast hælæfingar ekki skemmtilegar (tja, ekki eins skemmtilegt eins og henni finnst að hlaupa í hundafimi eða smala hrossum) sérstaklega þar sem að henni finnast fætur ekki skemmtilegir. Ég var að vinna aðeins í því inn í reiðhöllinni og það sást hvað henni fannst það leiðinlegt þegar ég kom út. Hún heldur sig alltaf c.a. 30 cm frá mér. Aðrar æfingar voru mjög góðar, standa á göngu er nánast tilbúin (ég þarf bara að venja mig af því að vera með tvöfaldar skipanir, hún er að gera sinn hlut fullkomlega).

Að myndatökum loknum fórum við inn á Hellu og tókum sporaæfingu, og litla skottið mitt kom mér heldur betur á óvart, því hún vissi sko NÁKVÆMLEGA hvað hún átti að gera þó sporið hefði fengið að eldast aðeins og dró mig nánast alla leið. Síðan fór Anna og lagðist út fyrir hana og við tókum eina víðavangsleit, og hún hafði sko engu gleymt þar heldur !

En já, hælgönguna þurfum við að laga eitthvað aðeins...

Hestamennskan gengur líka vel (komin tími til að tala aðeins um hana líka). Skjóna lærir meira með hverjum reiðtúrnum og Gosi greyið var rakaður um páskana og finnst það ekkert mjög sniðugt. Ég var reyndar að vonast eftir því að veðrið færi að lagast en hann er þá bara með teppi svo honum verði ekki kalt.

En allavegana, þangað til næst :D

Engin ummæli: