Janúar:
Mynd tekin á gamlárskvöld 2008
Mánuðurinn byrjaði undarlega, því ég átti flug aftur til Danmerkur klukkan 7 um morguninn. Gamlárskvöld var því með rólegasta móti (gaf mér góðan tíma til að sitja við skriftir en tókst samt ekki að klára annálinn sem reyndist stærra verk en ég átti von á, en hvað um það). Valdi skutlaði mér svo á flugvöllinn og ég kvaddi landið, í bili. Ekki er hægt að segja að við hafi tekið eintóm gleði þar sem að mín beið ekkert nema lærdómur allan mánuðinn, enda höfum við lokapróf í janúarlok í skólanum hjá mér einhverra hluta vegna. Það sama bíður mín reyndar núna en við komum að því seinna. Þegar prófin kláruðust hoppaði ég upp í lest og sótti lítinn leynigest sem ætlaði að búa hjá mér fram á vor þangað til hún yrði nógu gömul til að fara heim til Íslands.Ég get ekki sagt að ég sé mikil smáhundamanneskja og hef í raun aldrei verið með svona lítinn hund þ.a. ýmislegt var nokkuð nýtt fyrir mér en við pössuðum vel saman og ég get allavegana sagt að hún var ansi lunkin í að sækja dót, alveg eins og stóru hundarnir mínir. En litla íbúðin mín varð allt í einu mun líflegri með litla krílinu og fór ansi vel um okkur þó hún hafi ekki verið stór.
Litla íbúðin mín í Danmörku
Lítið er hægt að segja af sögum Valda þennan mánuðinn, og þar sem að hann eyddi ótrúlega stórum hluta ársins í að klára námið sitt þá skuluð þið gera ráð fyrir því að ef ég segi ekki frá afdrifum hans í þaula þá hafi hann verið upptekin við lærdóminn, sem borgaði sig líka ágætlega fyrir hann kallinn !
Febrúar: kom með miklum kulda, vá hvað ég átti ekki von á því hversu kalt verður í baunalandinu á veturna. En það er ekki hægt að segja að þeir fái mikið að njóta snjós. Ég get allavegana ekki sagt að snjór hafi angrað mig mikið þar sem að ef hann kom þá hélst hann í mesta lagi í nokkra daga. En frostið og kuldinn er einhverra hluta vegna mun verri hérna heldur en heima, gæti verið rakinn, hver veit, en ég fór sjaldnast út án húfu og vettlinga og hlýja úlpan mín gerði gæfumuninn. Einkunnir komu úr prófunum og þau fóru eins og ég átti von á. Einnig fórum við Sól ótroðnar slóðir í að upplifa „hundalíf“ í borg þar sem hundar eru velkomnir nánast alls staðar.
Við stelpurnar höfðum reyndar nokkuð skemmtilegt í bígerð, þar sem við rúlluðum til Fredericia með briard tíkina sem Guðríður var að passa, á hundasýningu. Íla stóð sig ansi vel, heillaði dómarann hressilega, fékk heiðursverðlaun og varð besti hvolpur tegundar.
Þetta þýddi að við urðum að bíða eftir úrslitunum um besta hvolp sýningar, en bara að verða besti hvolpur tegundar voru ansi góð úrslit fyrir þennan íslandsfara. Úrslitin komu svo seinna um daginn og þar voru hátt í 60 hvolpar, af jafn mörgum tegundum og mikil samkeppni. Þegar við mættum inn í stóra hringinn stóð hún sig svona líka vel að dómarinn valdi hana út sem 4 besta hvolp dagsins, sem þýddi að við fórum á bæði á bleika dregilinn og verðlaunapall.
Helgin eftir þetta var alls ekki leiðinleg heldur, þar sem að Valdi minn skellti sér upp í flugvél og hoppaði yfir hafið til mín. Hann fékk smá forsmekk af því hvernig danskur vetur er, hrollkaldur og stundum pínu snjór.
Mars: var nú nokkuð fréttalítill, mest bara lærdómur og smá fíflaskapur með góðum vinum. Kolla og Elli komu í heimsókn í litla kotið ásamt einum litlum husky sem gistu öll í litlu íbúðinni þ.a. allt í allt vorum við 5, og ég held að ég hafi ekki náð að toppa þá tölu allan tímann sem ég bjó þarna.
Elli og husky hundurinn Alex
Elli, Kolla og ég
Apríl: aftur á móti var atburðaríkur mánuður. Ég kláraði líklega eitt leiðinlegasta fag sem ég hef nokkurn tíman farið í og var mikið fegin að standast það. Veðrið í danaveldi var nú samt orðið mun betra og vorið kom með látum með sól og hita og grænum skógum. Það hentaði vel til útivistar og fóru grillveislur í garðinum að verða ansi margar. Planið mitt var alltaf að komast heim fyrir afmælið hans Valda, þar sem að við eigum bæði afmæli í apríl, með stuttu millibili, en skólinn minn var ekki alveg sammála og henti á okkur lokaprófi daginn eftir afmælið hans Valda þ.a. ég komst ekki heim fyrr en tveimur dögum seinna. En ég bætti okkur það upp með löngu páskafríi sem var eytt í dýrastúss og samveru með fjölskyldu og vinum. Þorri litli dafnaði vel í sveitinni með hrossunum eins og sjá má, og ég er ekki frá því að það leynist eitthvað módelblóð í honum því ég man ekki eftir því að hafa séð hest stilla sér upp fyrir myndatökur áður eins og hann gerir.
Hrossin myndarleg í Mýrarkotinu
Við kíktum einnig á Álfhóla að kíkja á gullin okkar þar, og það var sama sagan, sátt og sælleg hross, Artemis orðin að stóðmeri og staðráðin í að leyfa okkur ekki að nálgast sig, á meðan Orka litla var til í knús og kossa.
Það fer Artemis vel að vera stóðmeri í mýrinni
Valdi og Orka
En tíminn bíður ekki eftir neinum og það kom að því að ég varð að fara aftur út, en þetta síðasta úthald var bara í tæpa tvo mánuði þar sem leið mín lá aftur heim í lok júní. Við tók lærdómur, lærdómur og meiri lærdómur, við Valdi vorum soldið í sama bátnum að því leiti að meira og minna allur okkar tími fór í lærdóm og skóla. Það reyndar borgaði sig alveg þar sem að við uppskárum nokkurnvegin eins og við sáðum og stóðumst öll okkar próf með prýði. En litla dýrið og góða veðrið beið mín í Danmörku og þangað var ferðinni heitið.
Maí: getum við lýst í tveimur orðum, snilldar veður ! Veðurblíðan jafnaðist á stundum á við veður eins og það gerist best í heitari löndum (sem Danmörk jú er, en hún kom mér nú samt á óvart þarna) og það endaði á því að ég neyddist út í búð til að kaupa léttari föt til að vera í að sumarlagi. Ég gerði eitt sinn þau mistök að fara út að skokka í dökkum fötum og það geri ég sko ekki aftur. Þ.a. núna er ég ágætlega sett þegar veðrið fer að hlýna aftur næsta vor. Við Sól skelltum okkur samt í smá ferðalag og lögðum land undir fót og skruppum til Ålaborgar til þess að fara á hundasýningu. Vinafólk mitt býr þar og voru þau svo yndisleg að skjóta yfir okkur ferðalangana skjólshúsi. Vistin hjá þeim var reyndar svo æðisleg að ég þarf að gera mér upp einhverja ástæðu seinna meir til að kíkja aftur á þau, en það er seinni tíma vandamál. Skógurinn „minn“ var orðinn iða grænn og eyddi ég eins miklum tíma utandyra eins og ég mögulega gat og var maður farinn að verða sólbrúnn og sællegur.
Valdi lauk sínum lokaprófum í maí og flaug svoleiðis í gegnum þau. Hann var reyndar búinn að taka ákvörðun um að taka sumarönn líka, lokaverkefni og einn kúrs með, til að geta verið búinn í lok ágúst þar sem að hann komst inn í Mastersnám í DTU í einhverju sem ég get ekki enn borið fram. Í stuttu máli sagt er hann í Mastersnámi í rafmagnsverkfræði en ég get ekki útskýrt námið hans mikið meira en það. Ég get nú ekki sagt annað en að ég var að rifna úr stolti þegar hann komst inn í skólann, sérstaklega þar sem að stór partur af okkar sameiginlegum plönum byggir á því að hann sé hérna úti líka þar sem ég verð hér í nokkur á í viðbót.
Júní: kom og ekki versnaði veðrið (ætli ég sé ekki mikið að ræða um veðrið þar sem að lítið annað gerðist hjá okkur skötuhjúunum nema lærdómur, já og maður er ekki vanur svona dönsku veðri heldur). Valdi var byrjaður í lokaverkefninu sínu ásamt síðasta kúrsinum, og hann og félagi hans í lokaverkefninu bitu ansi stórann bita af kökunni þegar þeir völdu sér verkefni því þeir tveir saman ætluðu að hanna og smíða Segway (sem er svona hjól sem þú stendur ofaná og hallar þér svo fram og það keyrir, voða tæknilegt og sniðugt)
Segway tæki
Í lok mánaðarins tók ég síðasta prófið á fyrsta árinu og hoppaði um leið upp í flugvél og kom heim. Loksins var „útlegð“ minni lokið og ég komin heim. Við biðum ekki boðana og brunuðum í sveitina.
Dís að smala hestunum í sveitinni
Í Júlí tók vinnan við, Valdi vann ennþá hörðum höndum að hönnun og smíði og sást voða lítið utan skólastofunnar á meðan ég eyddi öllum dögum í reiðbuxum, bæði í vinnu og utan hennar. Litlu skotturnar mínar, Fluga og Dís fylgdu mér alla daga og sáu um að heilla og knúsa ferðamenn ásamt því að siða til hestana og sjá um reksturinn tvisvar á dag. Við stelpurnar sem búum hérna í Morbærhaven vorum búnar að plana hestaferð í júlí í uppsveitum Hrunahrepps, sem innihélt Svínárnes, Helgaskála og Laxárgljúfur. Ferðin var æðisleg í alla staði, ferðahópurinn góður og fullt af frábærum minningum.
Reksturinn var ansi glæsilegur
Það er alltaf gaman að ríða um Laxárgljúfrin
Í þessum sama mánuði fjölgaði aðeins í hrossahópnum hjá okkur, þar sem að fyrstu verðlauna merin okkar Artemis kom með fyrsta afkvæmið sitt. Okkur fæddist jarpur hestur sem hefur í bili verið nefndur Atlas frá Álfhólum.
Artemis og frumburðurinn
Valdi og Atlas að hittast í fyrsta skiptið
Artemis var reyndar ekkert á því að hún hafi nokkurn tíman verið tamin og hljóp um mýrina eins og óð þangað til við náðum henni. Hún er nú formlega orðin stóðmeri og er greinilega sátt við það hlutverk. En hún fór í heimsókn til annars graðhests með von um annað folald. Við mamma fórum svo í smá hestakaup sem enduðu þannig að hún á Þorra litla í dag og ég brunaði með Þrá, mömmu hans, undir annan hest að eigin vali. Svo er bara að bíða og sjá hvað fæðist næsta sumar. Í lok mánaðarins kom danskur vinur minn til Íslands, í smá sumarfrí, sem gaf mér afsökun fyrir því að trítla um landið með hann í eftirdragi og heimsækja alla mína uppáhalds staði. Við fórum á Þingvelli, Gullfoss og Geysi, Stöng og Gjánna og Landmannalaugar þ.a. hann fékk smá grófa yfirsýn yfir allt það úrval sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Hann lærði svo líka að sitja hest
Fluga og Dís í Landmannalaugum
Í Ágúst var nú farið að styttast í annan endann á sumarfríinu hjá mér, þ.a. ég gerði mitt besta til að eyða eins miklum tíma og ég gat í að njóta landsins og vinanna. Valdi sat ennþá sveittur inn í skólastofu að vinna við lokaverkefnið sitt, en nokkur mynd var að verða komin á það, þó svo að þeir hafi verið sannfærðir um að þeim tækist ekki að klára það á tilsettum tíma. Ég dró Kollu vinkonu mína með mér í fjallgöngu og fórum við og gengum Glym, ég hafði aldrei farið þessa leið áður þó ég hafi reynt (og rignt niður...)
Ég kláraði síðustu íslensku hundasýningarnar sem ég mæti á í bili með því að klára meistaratitil á tvo af „mínum“ hundum, sem ég hef sýnt og fengið öll þeirra meistarastig á, en það voru þær ISShCH African Sauda og ISShCH Ægishjálms Galdra Þrá
ISShCH African Sauda
ISShCH Ægishjálms Galdra Þrá
September var mánuður breytinga, meiri breytinga fyrir Valda minn reyndar heldur en mig. Hann og Stebbi kláruðu lokaverkefnið, segway tækið þeirra, sem fékk hið skemmtilega nafn NoWay, virkaði eins og draumur. Þeir héldu vörnina sína og svo kom einkunnin, 10 á línuna, fyrir verkefnið, flutninginn og skýrsluna. Ekki amalegt það.
Svo kom stóra skrefið hans og hann flutti út líka. Við vorum því þrjú, ég, Valdi og Dís, í litlu íbúðinni minni. Við vorum komin með stóra íbúð hérna úti en við fengum hana ekki afhenta fyrr en um miðjan mánuðinn þ.a. við þurftum að búa sátt í þrengslunum. En það átti nú bara eftir að versna, þar sem að gámurinn með húsgögnunum okkar kom áður en stóra íbúðin var laus þ.a. þeim var öllum hrúgað inn í gömlu íbúðina. Við sáum þó til þess að það væri hægt að ganga inn í eldhús og til baka, en það var ekki mikið meira pláss en það. Það kom svo að því að stóra íbúðin var laus og í einum hvelli skelltum við öllu dótinu okkar yfir í nýju íbúðina og það var sko enginn smá munur að hafa allt í einu nóg pláss. Um miðjan mánuðinn var loksins kominn tími til að sækja drottninguna hana Artemis frá graðhestinum sem hún var í heimsókn hjá, og eins leiðinlegt og það er, þá reyndist hún tóm. Við fáum því engan gullmola undan henni á næsta ári og verðum að sætta okkur við einungis eitt folald. En það verður ekki af honum Valda tekið að hann er strax farinn að íhuga mögulega biðla fyrir næsta ár.
Stofan með útsýni út í garðinn
Og eldhús, mikill munur að hafa gott eldhús, ekki bara tvær hellur !
Dís nýtur þess að teygja úr sér núna þegar nægt er plássið
Við Dís notuðum tækifærið og kíktum á Chopenhagen Winner sýninguna sem var haldin hérna rétt hjá okkur. Henni gekk ansi vel og varð 3 besta tíkin.
Við Dís í hringnum
Október var tiltölulega fréttalítill, ég eyddi öllum mínum tíma í lestur fyrir stærsta kúrs sem ég hef klárað í einu (hann einn og sér var í einingum jafn stór og ein önn) og Valdi eyddi öllum sínum tíma í lærdóm líka þ.a. við vorum vægast sagt ekki skemmtileg. Við dýralæknanemar gerðum okkur reyndar glaðan dag og skelltum okkur í Hyttetúr, sem er svona nokkurs konar sumarbústaðarferð nema að hyttur eru meira eins og pínu litlir sumarbúastaðir á meðan sumarhús hérna eru eins og hallir. Andlegar rafhlöður voru hlaðnar og lærdómurinn kláraður eins og aldrei fyrr. Það kom sér líka vel þar sem að prófið kláraðist og ég stóðst með sóma.
Nóvember gaf smá meiri tíma til afslöppunar, en ekki mikinn, hann einkenndist eiginlega mest af gestagangi, og þá kom sér nú vel að hafa góðan svefnsófa. Í byrjun mánaðarins var Dansk Winner sýning danska kennel klúbbsins í Herning, en þar verður heimssýningin haldin á næsta ári. Ég var mikið búin að velta því fyrir mér hvort ég ætti að skrá Dís, en endaði á því að slá til, enda kjörið tækifæri að hitta fullt af vinum mínum sem lögðu land undir fót og komu á sýninguna. Elli minn kom og ferðaðist með mér í nokkuð fullum bíl, við kipptum Kollu upp í Kolding og „römbuðum“ á réttan stað þar sem bíllinn var aðeins að bregðast okkur með að ná ekki að hlaða GPS tækið. Ég mæli ekki með því að keyra um Jótland án korts eða GPS tækis. En þetta reddaðist allt og við komumst á leiðarenda, sem var risastórt sumarhús sem við leigðum yfir helgina. Ég hefði alveg verið til í að skipta og búa þarna, þvílíkt stórt og fínt hús. Sýningin var risastór, hef aldrei séð svona stóra sýningu. Dís var skráð báða dagana og gekk fínt, við skröltum því heim, sæl og sátt eftir frábæra helgi og ekkert beið mín nema lærdómur.
Við Dís aftur í hringnum, núna í Herning
Mamma og Unnar lögðu svo loksins land undir fót og hoppuðu hingað yfir í lok mánaðarins og vá hvað það var gott að fá þau. Það var reyndar ekki fyrr en við komumst í stóru íbúðina sem við höfðum pláss til að taka á móti þeim. Þau komu færandi hendi, með jól í tösku þ.a. núna erum við Valdi tilbúin fyrir jólin með íslenskt hangikjöt, laufabrauð, konfekt og harðfisk. Við kíktum í jóla-Tívolí og túrhestuðumst aðeins, og nutum lífsins.
Desember, sem er nú reyndar ekki búinn, var líklega ó-danskasti desember mánuður sem ég hef vitað um. Núna stuttu fyrir jól byrjaði að snjóa, og núna liggur u.þ.b. 20 cm snjólag yfir öllu, og blessaðir danirnir fengu flog. Þeir hættu algjörlega að kunna að keyra, lestir og metro fara í rugl og sumstaðar var fólki meira að segja ráðlagt að vera heima og leggja ekki út í snjókomuna. Heima myndi þetta flokkast sem fullkomið veður til að fara í snjógallann og fara út í snjókast, en hérna vilja danirnir víst halda börnunum sínum inni, skil þá ekki alveg. En fyrir vikið þá lítur út fyrir að við fáum hvít jól hér í baunalandinu, í fyrsta skiptið í einhver 7 ár víst. Allavegana þegar þetta er skrifað er 21 desember, og snjórinn virðist ekkert ætla að fara. Ákvörðunin um að vera úti um jólin er orðin að raunveruleika. Við vorum búin að velta þessu fyrir okkur soldið, og þar sem ég er að fara í risastórt próf í janúar þá fer allur minn tími núna í lestur og lærdóm. Í haust þegar við vorum að pakka sá ég til þess að lítil leyndamálabók fylgdi okkur út, en hún heitir Jólahefðir Nönnu Ragnars, fékk hana í jólagjöf frá ömmu, og hún er búinn að vera algjör „life saver“ þar sem að það eru allar mögulegar jólauppskriftir í henni sem ég þarf að nota. Ég er búin að baka piparkökur, gera súkkulaðitrufflur og jólaís, og svo er ég búin að plana máltíðirnar yfir hátíðirnar upp á hár. Annars er ég voða lítið stressuð yfir þessu, það verða stór tilbrygði að vera ekki hjá mömmu á aðfangadagskvöld, en það koma jól eftir þessi jól og við höfum það líka ansi gott hérna úti hvort eð er.
Jæja, þessi annáll tók styttri tíma en annáll síðasta árs, ekki nema tvo daga, en við hérna í baunalandinu óskum öllum heima, sem og annars staðar, gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs.
Silja og Valdi
Morbærhaven 4-50
2620 Albertslund
Danmark
2 ummæli:
Mikid rosalega ertu dugleg ad skrifa annal, eg er svo ekki ad nenna thvi.. finnst ekkert hafa gerst sidasta ar.. fullt af "ætla.." en ekkert "gerdi"....
Segi það með Margréti, vá hvað þú ert dugleg að skrifa þennan annál! Finnst dálítið fyndið að mér finnst ég nýbúin að lesa síðasta annál hjá þér! Hehe
Gleðilegt ár og knús á Flickuna :)
Skrifa ummæli