mánudagur, nóvember 15, 2010

Stundum skil ég ekki alveg

Hvað ég get verið vitlaus. Ég er búin að vera að velta því fyrir mér soldið undanfarið hvað Dís er misjafnlega góð í hoppunum. Stundum gerir hún þau 100 % með fullum krafti og á fullri ferð, en svo á hún það til að verða hæg, verða rosalega ringluð á því hvað ég er að byðja um (sérstaklega þegar það kemur að erfiðum beygjum í kringum hopp og stjórnun sem hundar þurfa að vera virkilega mikið þjálfaðir í til að skilja 100% hvað stjórnandinn er að meina). Þegar hún skilur ekki hvað ég er að tala um, þá verður hún hæg, hún verður óörugg og í verstu tilfellunum þá á hún það til að slökkva alveg á sér (hefur gerst örfáum sinnum en ég farin að þekkja merkin þegar hún er farin meira í þá átt og reyni virkilega að koma í veg fyrir það). En þegar ég var að æfa með henni á föstudaginn síðasta þá fékk ég algjöra hugljómun, alveg skólabókar "light bulb moment". Ég er nánast ekki neitt búin að vera að verðlauna fyrir hoppin ein og sér. Hún fær nánast aldrei umbun eða verðlaun fyrir það eitt að hoppa, hoppin hafa í hennar huga frekar lágt skemmtunargildi því það er svo langt síðan hún fékk verðlaun fyrir það eitt að hoppa. Hoppin hafa bara orðið svona millitæki á milli þess að framkvæma einhver af erfiðu tækjunum sem við erum búin að eyða mun meiri tíma í að þjálfa, því þau eru jú erfiðari. Hopp er bara hopp.

Eða hvað, ef við horfum á þetta út frá venjulegri braut, þá eru á bilinu 12-20 hopp í einni braut, en yfirleitt bara einu sinni vef, brú, A, salt og þessi "erfiðari" tæki. Samt hættir manni rosalega til að eyða miklu meiri tíma í að verðlauna erfiðu tækin og miklu meiri tíma í að æfa erfiðu tækin, en þau mynda undir 25% af venjulegri braut. Og þessa gildru féll ég í alveg kylliflöt. Ég hef soldið verið að drífa mig ómeðvitað, já eða kanski meðvitað líka, að ná að komast á "réttan" stað í þjálfun með Dís m.v. hvar hún ætti að vera m.v. aldur. En það virðist oftar en ekki vera að verða til þess að ég er of mikið að hoppa yfir mikilvæga hluti í þjálfuninni þ.a. ég þarf án gríns að einbeita mér að því að æfa grunninn, æfa grunninn og ÆFA GRUNNINN ! Það liggur í alvörunni ekkert á, ég á ekki eftir að skrá hana í mót fyrr en á næsta ári þ.a. við höfum ennþá nógan tíma.

Annað sem ég ætla að bæta við þjálfunina hjá mér líka er að þegar ég er að hlaupa brautir (sem ég geri þegar ég mæti á æfingar hjá klúbbnum sem ég er að æfa hjá) þá ætla ég frekar að hugsa um flæði og að ná upp meiri hraða á þessum erfiðari köflum, því það sem hún gerir núna er að hægja á sér (æfingarnar eru settar upp fyrir fullþjálfaða hunda, með 2 fullum brautum, sem hentar í raun ekki mjög vel ungum og óreyndum hundum en við látum það ekki á okkur fá) þegar kemur að erfiðari stjórnunum á hoppunum og verðlauna fyrir hoppin !

En að öðru óhundatengdu, eða svona að hluta til. Núna er næsta blokk byrjuð og fyrsti alvöru dýralækningarkúrsinn er að byrja núna hjá mér, fyrsti kúrsinn þar sem við fáum að læra um sjúkdóma og lækningar á dýrum og fáum að komast í kynni við lifandi dýr og fara inn á smádýra og stórdýra spítalann. Miðað við það hvað ég horfi fram á að vera að læra núna og það sem eftir er af náminu þá skil ég ekki hvernig ég þraukaði fyrsta árið sem virðist bara engin tengsl hafa við dýralækningar. Þetta verður bara skemmtilegt úr þessu. Ég sé reyndar líka fram á dýrustu bókakaupin í náminu til þessa en þetta eru samt allt bækur sem ég á eftir að eiga og nota það sem eftir er þ.a. ég hugga mig alveg við það (fyrir utan það hvað þær eru geðveikt flottar).

En þá er ég allavegana búin að koma niður á blað svona mínum helstu hugsunum um stöðuna í dag og væntanlegar breytingar í þjálfun, svona þar sem að ég er mest að gera þetta fyrir mig sjálfa.

Engin ummæli: