Við Dís nýttum tækifærið og laumuðum okkur á sporaæfingu hjá danska schaferklúbbnum með Guðríði og Ebbu í gærmorgun. Við dröttuðumst á fætur eldsnemma og klæddum okkur í eins mörg föt og við komumst í (allavegana ég, Dís þarf ekki mikið á fötum að halda enda ansi vel loðin skvísan) því hitamælirinn sagði -8°C (og trúið mér, það er svakalega kalt hérna þegar hitastigið er -8°C hérna í danmörku). Við fórum 3 á æfinguna, ég, Guðríður með Tristan og Ebba með Kobba. Þegar við mættum á staðin beið okkar heitt kaffi, gammel dansk og morgunmatur, danirnir kunna klárlega á þetta :-) En það var mjög vel tekið á móti okkur, líka okkur sem mættum með "vitlausa tegund". Ebba var með soldin móral yfir því að Kobbi á það til að vera soldið erfiður með öðrum hundum, en hann var eins og engill og kennarinn hafði átt von á mannætuskrímsli miðað við lýsingarnar, en hann hughreysti Ebbu mikið og hrósaði Kobba vel enda fúnkeraði hann fínt með hundunum sínum þarna og svo kom í ljós að hann er algjört náttúrutalent í spori. Enda er það nú heldur ekkert óþekkt fyrirbrigði hjá schafer hundum að vilja ekki alltaf tala við alla aðra hunda á svæðinu.
Fyrst á svæðið var Guðríður með Tristan, litli gormurinn sýndi fánanum sem markeraði upphaf sporsins meiri áhuga til að byrja með. En hann var fljótur að fatta að það væri allskonar góðgæti á jörðinni sem endaði svo á dóti og leik og öllu skemmtilegu í heiminum.
Svo var komið að Ebbu, Kobbi kveikti svona svakalega á nefinu að hann sleppti stórum hluta nammi bitanna á jörðinni og var alveg búin að fatta út á hvað leikurinn gengi þegar sporið endaði á uppáhalds dótinu hans í öllum heiminum.
Við Dís lögðum svo af stað í okkar spor og þjálfarinn sagði mér að benda henni á sporið og nammið til að sjá hvort hún myndi fatta slóðina. Aðstæðurnar voru reyndar alveg fáránlega erfiðar fyrir fyrstu æfingu þar sem jörðin var gaddfreðin og þetta var líkt og að spora á malbiki. Dís var svo mikið að pæla í því hvað hún ætti að gera til að fá nammið sem hún var viss um að væri í hendinni á mér að hún bauð mér upp á allskonar hegðanir, þ.a. ég reysti mig frekar upp og leyfði henni að finna út úr þessu alveg sjálf. Það tók smá tíma en vá hvað hún kveikti hressilega á nefinu á sér. Þegar hún sá svo að sporið endaði á dóti og leik, vá hvað mín var sátt !!!
Við tókum tvö rennsli á hvern hund, Dís kveikti nánast strax á perunni í seinna skiptið og rakti slóðina alla leið alveg án minna afskifta.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli