fimmtudagur, desember 31, 2009

annáll 2009

Jæja þá er komið að því, annáll ársins 2009 er í startholunum. Ég hef ákveðið að halda við þessari hefð frá því í fyrra, en þar sem að annáll ársins 2008 tók nokkra daga í skrifum hef ég ákveðið að byrja snemma á þessum, enda verð ég með gesti hérna á gamlárskvöld og ekki alveg í aðstöðu til að sitja með tölvuna í fanginu við skriftir. Í dag er 20 desember og hef ég því 10 daga til stefnu að klára annálinn áður en ég birti hann formlega. En þá er kannski ágætt að byrja á byrjuninni, þ.e.a.s. í

Janúar:



Mynd tekin á gamlárskvöld 2008
Mánuðurinn byrjaði undarlega, því ég átti flug aftur til Danmerkur klukkan 7 um morguninn. Gamlárskvöld var því með rólegasta móti (gaf mér góðan tíma til að sitja við skriftir en tókst samt ekki að klára annálinn sem reyndist stærra verk en ég átti von á, en hvað um það). Valdi skutlaði mér svo á flugvöllinn og ég kvaddi landið, í bili. Ekki er hægt að segja að við hafi tekið eintóm gleði þar sem að mín beið ekkert nema lærdómur allan mánuðinn, enda höfum við lokapróf í janúarlok í skólanum hjá mér einhverra hluta vegna. Það sama bíður mín reyndar núna en við komum að því seinna. Þegar prófin kláruðust hoppaði ég upp í lest og sótti lítinn leynigest sem ætlaði að búa hjá mér fram á vor þangað til hún yrði nógu gömul til að fara heim til Íslands.




Ég get ekki sagt að ég sé mikil smáhundamanneskja og hef í raun aldrei verið með svona lítinn hund þ.a. ýmislegt var nokkuð nýtt fyrir mér en við pössuðum vel saman og ég get allavegana sagt að hún var ansi lunkin í að sækja dót, alveg eins og stóru hundarnir mínir. En litla íbúðin mín varð allt í einu mun líflegri með litla krílinu og fór ansi vel um okkur þó hún hafi ekki verið stór.
Litla íbúðin mín í Danmörku










Lítið er hægt að segja af sögum Valda þennan mánuðinn, og þar sem að hann eyddi ótrúlega stórum hluta ársins í að klára námið sitt þá skuluð þið gera ráð fyrir því að ef ég segi ekki frá afdrifum hans í þaula þá hafi hann verið upptekin við lærdóminn, sem borgaði sig líka ágætlega fyrir hann kallinn !

Febrúar: kom með miklum kulda, vá hvað ég átti ekki von á því hversu kalt verður í baunalandinu á veturna. En það er ekki hægt að segja að þeir fái mikið að njóta snjós. Ég get allavegana ekki sagt að snjór hafi angrað mig mikið þar sem að ef hann kom þá hélst hann í mesta lagi í nokkra daga. En frostið og kuldinn er einhverra hluta vegna mun verri hérna heldur en heima, gæti verið rakinn, hver veit, en ég fór sjaldnast út án húfu og vettlinga og hlýja úlpan mín gerði gæfumuninn. Einkunnir komu úr prófunum og þau fóru eins og ég átti von á. Einnig fórum við Sól ótroðnar slóðir í að upplifa „hundalíf“ í borg þar sem hundar eru velkomnir nánast alls staðar.


Við stelpurnar höfðum reyndar nokkuð skemmtilegt í bígerð, þar sem við rúlluðum til Fredericia með briard tíkina sem Guðríður var að passa, á hundasýningu. Íla stóð sig ansi vel, heillaði dómarann hressilega, fékk heiðursverðlaun og varð besti hvolpur tegundar.



Þetta þýddi að við urðum að bíða eftir úrslitunum um besta hvolp sýningar, en bara að verða besti hvolpur tegundar voru ansi góð úrslit fyrir þennan íslandsfara. Úrslitin komu svo seinna um daginn og þar voru hátt í 60 hvolpar, af jafn mörgum tegundum og mikil samkeppni. Þegar við mættum inn í stóra hringinn stóð hún sig svona líka vel að dómarinn valdi hana út sem 4 besta hvolp dagsins, sem þýddi að við fórum á bæði á bleika dregilinn og verðlaunapall.





Helgin eftir þetta var alls ekki leiðinleg heldur, þar sem að Valdi minn skellti sér upp í flugvél og hoppaði yfir hafið til mín. Hann fékk smá forsmekk af því hvernig danskur vetur er, hrollkaldur og stundum pínu snjór.



Mars: var nú nokkuð fréttalítill, mest bara lærdómur og smá fíflaskapur með góðum vinum. Kolla og Elli komu í heimsókn í litla kotið ásamt einum litlum husky sem gistu öll í litlu íbúðinni þ.a. allt í allt vorum við 5, og ég held að ég hafi ekki náð að toppa þá tölu allan tímann sem ég bjó þarna.


Elli og husky hundurinn Alex


Elli, Kolla og ég

Apríl: aftur á móti var atburðaríkur mánuður. Ég kláraði líklega eitt leiðinlegasta fag sem ég hef nokkurn tíman farið í og var mikið fegin að standast það. Veðrið í danaveldi var nú samt orðið mun betra og vorið kom með látum með sól og hita og grænum skógum. Það hentaði vel til útivistar og fóru grillveislur í garðinum að verða ansi margar. Planið mitt var alltaf að komast heim fyrir afmælið hans Valda, þar sem að við eigum bæði afmæli í apríl, með stuttu millibili, en skólinn minn var ekki alveg sammála og henti á okkur lokaprófi daginn eftir afmælið hans Valda þ.a. ég komst ekki heim fyrr en tveimur dögum seinna. En ég bætti okkur það upp með löngu páskafríi sem var eytt í dýrastúss og samveru með fjölskyldu og vinum. Þorri litli dafnaði vel í sveitinni með hrossunum eins og sjá má, og ég er ekki frá því að það leynist eitthvað módelblóð í honum því ég man ekki eftir því að hafa séð hest stilla sér upp fyrir myndatökur áður eins og hann gerir.


Hrossin myndarleg í Mýrarkotinu






Við kíktum einnig á Álfhóla að kíkja á gullin okkar þar, og það var sama sagan, sátt og sælleg hross, Artemis orðin að stóðmeri og staðráðin í að leyfa okkur ekki að nálgast sig, á meðan Orka litla var til í knús og kossa.


Það fer Artemis vel að vera stóðmeri í mýrinni


Valdi og Orka

En tíminn bíður ekki eftir neinum og það kom að því að ég varð að fara aftur út, en þetta síðasta úthald var bara í tæpa tvo mánuði þar sem leið mín lá aftur heim í lok júní. Við tók lærdómur, lærdómur og meiri lærdómur, við Valdi vorum soldið í sama bátnum að því leiti að meira og minna allur okkar tími fór í lærdóm og skóla. Það reyndar borgaði sig alveg þar sem að við uppskárum nokkurnvegin eins og við sáðum og stóðumst öll okkar próf með prýði. En litla dýrið og góða veðrið beið mín í Danmörku og þangað var ferðinni heitið.

Maí: getum við lýst í tveimur orðum, snilldar veður ! Veðurblíðan jafnaðist á stundum á við veður eins og það gerist best í heitari löndum (sem Danmörk jú er, en hún kom mér nú samt á óvart þarna) og það endaði á því að ég neyddist út í búð til að kaupa léttari föt til að vera í að sumarlagi. Ég gerði eitt sinn þau mistök að fara út að skokka í dökkum fötum og það geri ég sko ekki aftur. Þ.a. núna er ég ágætlega sett þegar veðrið fer að hlýna aftur næsta vor. Við Sól skelltum okkur samt í smá ferðalag og lögðum land undir fót og skruppum til Ålaborgar til þess að fara á hundasýningu. Vinafólk mitt býr þar og voru þau svo yndisleg að skjóta yfir okkur ferðalangana skjólshúsi. Vistin hjá þeim var reyndar svo æðisleg að ég þarf að gera mér upp einhverja ástæðu seinna meir til að kíkja aftur á þau, en það er seinni tíma vandamál. Skógurinn „minn“ var orðinn iða grænn og eyddi ég eins miklum tíma utandyra eins og ég mögulega gat og var maður farinn að verða sólbrúnn og sællegur.




Valdi lauk sínum lokaprófum í maí og flaug svoleiðis í gegnum þau. Hann var reyndar búinn að taka ákvörðun um að taka sumarönn líka, lokaverkefni og einn kúrs með, til að geta verið búinn í lok ágúst þar sem að hann komst inn í Mastersnám í DTU í einhverju sem ég get ekki enn borið fram. Í stuttu máli sagt er hann í Mastersnámi í rafmagnsverkfræði en ég get ekki útskýrt námið hans mikið meira en það. Ég get nú ekki sagt annað en að ég var að rifna úr stolti þegar hann komst inn í skólann, sérstaklega þar sem að stór partur af okkar sameiginlegum plönum byggir á því að hann sé hérna úti líka þar sem ég verð hér í nokkur á í viðbót.

Júní: kom og ekki versnaði veðrið (ætli ég sé ekki mikið að ræða um veðrið þar sem að lítið annað gerðist hjá okkur skötuhjúunum nema lærdómur, já og maður er ekki vanur svona dönsku veðri heldur). Valdi var byrjaður í lokaverkefninu sínu ásamt síðasta kúrsinum, og hann og félagi hans í lokaverkefninu bitu ansi stórann bita af kökunni þegar þeir völdu sér verkefni því þeir tveir saman ætluðu að hanna og smíða Segway (sem er svona hjól sem þú stendur ofaná og hallar þér svo fram og það keyrir, voða tæknilegt og sniðugt)


Segway tæki

Í lok mánaðarins tók ég síðasta prófið á fyrsta árinu og hoppaði um leið upp í flugvél og kom heim. Loksins var „útlegð“ minni lokið og ég komin heim. Við biðum ekki boðana og brunuðum í sveitina.




Dís að smala hestunum í sveitinni










Í Júlí tók vinnan við, Valdi vann ennþá hörðum höndum að hönnun og smíði og sást voða lítið utan skólastofunnar á meðan ég eyddi öllum dögum í reiðbuxum, bæði í vinnu og utan hennar. Litlu skotturnar mínar, Fluga og Dís fylgdu mér alla daga og sáu um að heilla og knúsa ferðamenn ásamt því að siða til hestana og sjá um reksturinn tvisvar á dag. Við stelpurnar sem búum hérna í Morbærhaven vorum búnar að plana hestaferð í júlí í uppsveitum Hrunahrepps, sem innihélt Svínárnes, Helgaskála og Laxárgljúfur. Ferðin var æðisleg í alla staði, ferðahópurinn góður og fullt af frábærum minningum.


Reksturinn var ansi glæsilegur


Það er alltaf gaman að ríða um Laxárgljúfrin

Í þessum sama mánuði fjölgaði aðeins í hrossahópnum hjá okkur, þar sem að fyrstu verðlauna merin okkar Artemis kom með fyrsta afkvæmið sitt. Okkur fæddist jarpur hestur sem hefur í bili verið nefndur Atlas frá Álfhólum.


Artemis og frumburðurinn



Valdi og Atlas að hittast í fyrsta skiptið


Artemis var reyndar ekkert á því að hún hafi nokkurn tíman verið tamin og hljóp um mýrina eins og óð þangað til við náðum henni. Hún er nú formlega orðin stóðmeri og er greinilega sátt við það hlutverk. En hún fór í heimsókn til annars graðhests með von um annað folald. Við mamma fórum svo í smá hestakaup sem enduðu þannig að hún á Þorra litla í dag og ég brunaði með Þrá, mömmu hans, undir annan hest að eigin vali. Svo er bara að bíða og sjá hvað fæðist næsta sumar. Í lok mánaðarins kom danskur vinur minn til Íslands, í smá sumarfrí, sem gaf mér afsökun fyrir því að trítla um landið með hann í eftirdragi og heimsækja alla mína uppáhalds staði. Við fórum á Þingvelli, Gullfoss og Geysi, Stöng og Gjánna og Landmannalaugar þ.a. hann fékk smá grófa yfirsýn yfir allt það úrval sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Hann lærði svo líka að sitja hest

Fluga og Dís í Landmannalaugum

Í Ágúst var nú farið að styttast í annan endann á sumarfríinu hjá mér, þ.a. ég gerði mitt besta til að eyða eins miklum tíma og ég gat í að njóta landsins og vinanna. Valdi sat ennþá sveittur inn í skólastofu að vinna við lokaverkefnið sitt, en nokkur mynd var að verða komin á það, þó svo að þeir hafi verið sannfærðir um að þeim tækist ekki að klára það á tilsettum tíma. Ég dró Kollu vinkonu mína með mér í fjallgöngu og fórum við og gengum Glym, ég hafði aldrei farið þessa leið áður þó ég hafi reynt (og rignt niður...)






Ég kláraði síðustu íslensku hundasýningarnar sem ég mæti á í bili með því að klára meistaratitil á tvo af „mínum“ hundum, sem ég hef sýnt og fengið öll þeirra meistarastig á, en það voru þær ISShCH African Sauda og ISShCH Ægishjálms Galdra Þrá


ISShCH African Sauda



ISShCH Ægishjálms Galdra Þrá

Við Fluga og Dís notuðum einnig tímann okkar vel þar sem að það styttist í að við Dís færum til Danmerkur, en Fluga varð eftir í Fífurimanum. En það kom að því á endanum að ég færi út aftur, plönin okkar Valda hliðruðust aðeins þar sem að verkefnið var á lokasprettinum þegar við áttum bókað flug þ.a. ég fór út nokkrum dögum á undan honum.


September var mánuður breytinga, meiri breytinga fyrir Valda minn reyndar heldur en mig. Hann og Stebbi kláruðu lokaverkefnið, segway tækið þeirra, sem fékk hið skemmtilega nafn NoWay, virkaði eins og draumur. Þeir héldu vörnina sína og svo kom einkunnin, 10 á línuna, fyrir verkefnið, flutninginn og skýrsluna. Ekki amalegt það.



Svo kom stóra skrefið hans og hann flutti út líka. Við vorum því þrjú, ég, Valdi og Dís, í litlu íbúðinni minni. Við vorum komin með stóra íbúð hérna úti en við fengum hana ekki afhenta fyrr en um miðjan mánuðinn þ.a. við þurftum að búa sátt í þrengslunum. En það átti nú bara eftir að versna, þar sem að gámurinn með húsgögnunum okkar kom áður en stóra íbúðin var laus þ.a. þeim var öllum hrúgað inn í gömlu íbúðina. Við sáum þó til þess að það væri hægt að ganga inn í eldhús og til baka, en það var ekki mikið meira pláss en það. Það kom svo að því að stóra íbúðin var laus og í einum hvelli skelltum við öllu dótinu okkar yfir í nýju íbúðina og það var sko enginn smá munur að hafa allt í einu nóg pláss. Um miðjan mánuðinn var loksins kominn tími til að sækja drottninguna hana Artemis frá graðhestinum sem hún var í heimsókn hjá, og eins leiðinlegt og það er, þá reyndist hún tóm. Við fáum því engan gullmola undan henni á næsta ári og verðum að sætta okkur við einungis eitt folald. En það verður ekki af honum Valda tekið að hann er strax farinn að íhuga mögulega biðla fyrir næsta ár.

Stofan með útsýni út í garðinn  





Og eldhús, mikill munur að hafa gott eldhús, ekki bara tvær hellur !




Dís nýtur þess að teygja úr sér núna þegar nægt er plássið


Við Dís notuðum tækifærið og kíktum á Chopenhagen Winner sýninguna sem var haldin hérna rétt hjá okkur. Henni gekk ansi vel og varð 3 besta tíkin.


Við Dís í hringnum

Október var tiltölulega fréttalítill, ég eyddi öllum mínum tíma í lestur fyrir stærsta kúrs sem ég hef klárað í einu (hann einn og sér var í einingum jafn stór og ein önn) og Valdi eyddi öllum sínum tíma í lærdóm líka þ.a. við vorum vægast sagt ekki skemmtileg. Við dýralæknanemar gerðum okkur reyndar glaðan dag og skelltum okkur í Hyttetúr, sem er svona nokkurs konar sumarbústaðarferð nema að hyttur eru meira eins og pínu litlir sumarbúastaðir á meðan sumarhús hérna eru eins og hallir. Andlegar rafhlöður voru hlaðnar og lærdómurinn kláraður eins og aldrei fyrr. Það kom sér líka vel þar sem að prófið kláraðist og ég stóðst með sóma.

Nóvember gaf smá meiri tíma til afslöppunar, en ekki mikinn, hann einkenndist eiginlega mest af gestagangi, og þá kom sér nú vel að hafa góðan svefnsófa. Í byrjun mánaðarins var Dansk Winner sýning danska kennel klúbbsins í Herning, en þar verður heimssýningin haldin á næsta ári. Ég var mikið búin að velta því fyrir mér hvort ég ætti að skrá Dís, en endaði á því að slá til, enda kjörið tækifæri að hitta fullt af vinum mínum sem lögðu land undir fót og komu á sýninguna. Elli minn kom og ferðaðist með mér í nokkuð fullum bíl, við kipptum Kollu upp í Kolding og „römbuðum“ á réttan stað þar sem bíllinn var aðeins að bregðast okkur með að ná ekki að hlaða GPS tækið. Ég mæli ekki með því að keyra um Jótland án korts eða GPS tækis. En þetta reddaðist allt og við komumst á leiðarenda, sem var risastórt sumarhús sem við leigðum yfir helgina. Ég hefði alveg verið til í að skipta og búa þarna, þvílíkt stórt og fínt hús. Sýningin var risastór, hef aldrei séð svona stóra sýningu. Dís var skráð báða dagana og gekk fínt, við skröltum því heim, sæl og sátt eftir frábæra helgi og ekkert beið mín nema lærdómur.


Við Dís aftur í hringnum, núna í Herning

Mamma og Unnar lögðu svo loksins land undir fót og hoppuðu hingað yfir í lok mánaðarins og vá hvað það var gott að fá þau. Það var reyndar ekki fyrr en við komumst í stóru íbúðina sem við höfðum pláss til að taka á móti þeim. Þau komu færandi hendi, með jól í tösku þ.a. núna erum við Valdi tilbúin fyrir jólin með íslenskt hangikjöt, laufabrauð, konfekt og harðfisk. Við kíktum í jóla-Tívolí og túrhestuðumst aðeins, og nutum lífsins.

Desember, sem er nú reyndar ekki búinn, var líklega ó-danskasti desember mánuður sem ég hef vitað um. Núna stuttu fyrir jól byrjaði að snjóa, og núna liggur u.þ.b. 20 cm snjólag yfir öllu, og blessaðir danirnir fengu flog. Þeir hættu algjörlega að kunna að keyra, lestir og metro fara í rugl og sumstaðar var fólki meira að segja ráðlagt að vera heima og leggja ekki út í snjókomuna. Heima myndi þetta flokkast sem fullkomið veður til að fara í snjógallann og fara út í snjókast, en hérna vilja danirnir víst halda börnunum sínum inni, skil þá ekki alveg. En fyrir vikið þá lítur út fyrir að við fáum hvít jól hér í baunalandinu, í fyrsta skiptið í einhver 7 ár víst. Allavegana þegar þetta er skrifað er 21 desember, og snjórinn virðist ekkert ætla að fara. Ákvörðunin um að vera úti um jólin er orðin að raunveruleika. Við vorum búin að velta þessu fyrir okkur soldið, og þar sem ég er að fara í risastórt próf í janúar þá fer allur minn tími núna í lestur og lærdóm. Í haust þegar við vorum að pakka sá ég til þess að lítil leyndamálabók fylgdi okkur út, en hún heitir Jólahefðir Nönnu Ragnars, fékk hana í jólagjöf frá ömmu, og hún er búinn að vera algjör „life saver“ þar sem að það eru allar mögulegar jólauppskriftir í henni sem ég þarf að nota. Ég er búin að baka piparkökur, gera súkkulaðitrufflur og jólaís, og svo er ég búin að plana máltíðirnar yfir hátíðirnar upp á hár. Annars er ég voða lítið stressuð yfir þessu, það verða stór tilbrygði að vera ekki hjá mömmu á aðfangadagskvöld, en það koma jól eftir þessi jól og við höfum það líka ansi gott hérna úti hvort eð er.

Jæja, þessi annáll tók styttri tíma en annáll síðasta árs, ekki nema tvo daga, en við hérna í baunalandinu óskum öllum heima, sem og annars staðar, gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs.


Silja  og Valdi
Morbærhaven 4-50
2620 Albertslund
Danmark

föstudagur, desember 04, 2009

hundafimi og annað slíkt

Hundafimi tíminn okkar Dísar var afar skemmtilegur, eins og við var að búast. Ég var búin að skoða hvaða leiðir ég hefði til að komast fram og til baka á netinu og búin að ákveða hvaða strætóa við ætluðum að taka og við vorum mættar á réttum tíma út á strætóstoppistöðina. Nema hvað að strætóinn var með allt aðra áætlun sem hann var að keyra eftir en þá sem netið hafði sýnt þ.a. hefðum við beðið eftir honum hefðum við orðið allt of seinar. Ég stökk því heim og náði í hjólið og við hjóluðum yfir í næsta bæ, einhverja 6 kílómetra, og römbuðum beint á réttan stað eiginlega alveg óvart. Æfingin var haldin á opnu túni umvöfnu umferðargötum á 3 vegu, þegar við komum á staðinn var verið að tína tækin út úr frekar skemmtilegri lítilli rútu sem er sér útbúin til að ferja tækin þeirra. Við komum okkur fyrir og hjálpuðum til og fórum svo að leika okkur í einföldum göngum og hoppum.

Hún hefur greinilega ekki gleymt því hvað göng eru, því það var eiginlega eina tækið sem ég var búin að kenna henni þegar hún var hvolpur. Hoppin voru meira áhugaverð þar sem að hún fór stundum yfir, stundum undir og stundum framhjá, allt eftir því hvað henni datt í hug akkúrat þá. Annars stóð hún sig svaka vel, hafði allan sinn áhuga á mér og dótinu. Annars var ég að rifja það upp í huganum hvernig Fluga var þegar við mættum saman í fyrsta skiptið, hún var reyndar ansi lofandi í fyrstu skiptin en ég man samt svo greinilega tímann þegar hún fór almennilega úr "handler fokus" of yfir í "obsticle fokus" og fór að hlaupa á alvöru hraða. Annars var ég aðeins að skoða hina hundana sem voru að æfa þarna, því það var alveg slatti af keppnisfærum hundum sem fólk var að æfa með, og eiginlega bara við Dís og eitt annað par sem "byrjendur". Þeir voru fjandi góðir, flestir voru með einhverja stop hegðun á endanum á brúnni og vefin voru ansi góð, en það var sett um með "guide wires" eða neti á alla kanta. Tækin þeirra eru mjög góð, allt öðruvísi en við eigum heima, en ansi góð engu að síður, nema að ég væri til í að vera með meira "sveigjanlegar" stangir í vefinu til að fá þéttari hreyfingu og hraðara vef hjá stóru hundunum. En að lokinni æfingunni hjóluðum við heim aftur sömu leið, þ.a. á einum degi hljóp hún 12 km og gormaðist 2 tíma í hundafimi, og hún flatmagaði í bælunum sínum fram eftir degi, þreytt og sátt.

En jólin nálgast víst, svo er mér sagt, þ.a. ég er búin að vera að lauma inn einum og einum jólahlut inn í íbúðina, jólarós og aðventukrans og svona, en ég er ekki alveg að finna almennilegar ljósaseríur. En það kemur, ég hlít að finna þær einhversstaðar. Annars er voða lítið annað í fréttum nema bara lærdómur, lærdómur og meiri lærdómur, spennandi.

miðvikudagur, nóvember 25, 2009

Foreldrarnir farnir heim

Já, mamma og Unnar eru farin aftur heim. Þau komu síðasta laugardag í heimsókn í fyrsta skiptið til mín í baunalandið. Það er nú skiljanlegt þar sem að ég var ekki beint með aðstæður til þess að taka á móti fullt af gestum í litlu íbúðinni minni en það er vægast sagt auðveldara að taka á móti fólki núna. Svefnsófinn fékk loksins aftur notkun, hefur örugglega verið orðinn soldið einmanna þar sem að ég nánast bjó í honum í 10 mánuði...

En það var vægast sagt æðislegt að hafa þau hérna, fékk smá fjölskylduvítamínsprautu :) Þau komu reyndar færandi hendi með "jól í tösku" fyrir okkur Valda, hangikjöt, laufabrauð, Nóa konfekt og allskonar gúmmelaði. Ég fékk reyndar smá svona "sjokk", ákvörðunin um að vera í baunalandinu um jólin varð öll einhvern vegin raunverulegri. Fyrstu jólin okkar Valda alveg alein. Ég hef hingað til eitt öllum mínum jólum með fjölskyldunni, og finnst skrítið að breyta því, en þetta er kanski partur af því að fullorðnast og verða "stór". Ekki það að ég hef alveg fjandi nóg að gera í lærdómnum um jólin og það stefnir í lærdóms mestu jól fyrr eða síðar. En það hefði nú verið fjandi gott samt að vera heima um jólin, komast í hesthúsið og svona.

En það koma jól eftir þessi jól og við Valdi fáum þá tækifæri til að búa til okkar eigin hefðir. Ég er reyndar soldið föst í því að vilja hafa mínar hefðir, t.d. þegar kemur að matseðlinum á aðfangadag, sjáum til hversu umburðarlyndur Valdi minn verður við mig, ekki það að eina krafan sem hann hefur sett fram hingað er að við höfum truffle-ið hennar tengdó um jólin og ég er sko alveg sátt við það !

Annars var ég að kíkja í svaka góða bók sem ég fékk í jólagjöf einu sinni, Jólahefðir eftir Nönnu Ragnvalds, þ.a. ég á allar helstu jólauppskriftir sem mig vantar. En næst er þá höfuðverkurinn að ákveða hvað verður í jólamatinn, forrétt, aðalrétt og eftirrétt yfir hátíðirnar. Eldamennskuhæfileikar mínir fá aldeilis að finna fyrir því. En núna eru hátíðirnar "á mína ábyrgð" þ.a. það er eins gott að standa undir því :P

Lærdómurinn stendur enn á svipuðu skriði og áður, tók reyndar pásu þessa þrjá daga sem heimsóknin stóð yfir, en ég hef hafist handa við lesturinn aftur. Dagarnir munu því snúast um lestur og útivist með Dís. Við skvísurnar skelltum okkur í hjólatúr í gær og fórum troðnar slóðir, sem við höfum ekki áður farið og dunduðum okkur aðeins við að reyna að villast í skógjinum. Það gekk ekki betur en svo að við römbuðum fram á sérstakt svæði í skógjinum sem er skipulagt sem og ætlað fyrir sporaþjálfun, hvort sem er fyrir einstaklinga eða námskeið.

Ég var klárlega himin lifandi með þetta, en "svekkelsið" kom svo stuttu seinna þegar ég áttaði mig á því að nú hef ég nákvæmlega enga afsökun fyrir því að láta sporaþjálfun liggja á hakanum eins og ég hafði ætlað mér. Þ.a. nú förum við Dís að hafa okkur til við að læra grunninn í spori, hlýðni og hundafimi, allt á nánast sama tíma. En svona ef þið munið það ekki þá ætlum við að kíkja í "pre-school" agility tíma á laugardaginn að öllu eðlilegu.

En svona til að skreyta aðeins þessi myndarlausu blogg mín undanfarið (hef verið hressilega lög við að fara út með myndarvélina með mér, enda kanski ekki alveg fótógeníska umhverfið svona blautt og drullugt), þá er kjörið að skella með mynd sem náðist óvænt af mér og Flugu að spora á Gaddastaðaflötum á Hellu hérna fyrir einhverju síðan.


miðvikudagur, nóvember 18, 2009

hundablogg

Jæja, ef ykkur líkar ekki að lesa hundablogg hjá mér, þá sleppið þessum pósti :P

Og ef ykkur líkar ekki að lesa hundaþjálfunarblogg, ekki heldur lesa þennan póst.

Veit ekki hversu margir eru eftir þá, held eiginlega að ég sé bara að skrifa þetta fyrir mig (og Möggu, sem er líklega ein af fáum sem les enn bloggið mitt), sem er reyndar ágætt því ég get þá lesið það aftur seinna.

Allavegana, hundafimiþjálfun hefur setið aðeins á hakanum þangað til að ég get komist í tæki. Ég reyndar hefði getað komist síðasta laugardag, en fattaði það ekki fyrr en of seint að það hefði verið opinn tími þann daginn. Síðustu opnu tímarnir hafa lennt á prófhelgi, Herning helginni, og svo greinilega síðustu helgi, sem ég hefði komist á hefði ég bara fattað það. En það er svo önnur æfing 28 nóv og við ætlum þangað.

Þangað til hef ég notað göngutúrana okkar til hlýðniþjálfunnar, þá reyndar helst til að kenna henni keppnishæl. Síðan við komum út hef ég verið að grautast í því hægt og rólega og það tók nokkurn tíma fyrir hana að fatta hvað ég var að tala um. Á endanum tók ég með mér fullan vasa af nammi og klikker og klikkaði í hvert skipti sem hún kom að vinstri hliðinni á mér. Það varð til þess að brjóta múrinn og þá fóru hlutirnir loksins að gerast. Eftir það fór hún að bjóða upp á þessa hegðun oftar og oftar og ég gat orðið verðlaunað meira og meira. Ég skipti fljótlega út nammi fyrir dót, og fór að nota stærri og stærri hluta af göngutúrunum til að leika okkur í hlýðni.

Ég var reyndar ekki sátt við að þurfa að nota tvöfalda skipun til að ná fram réttri staðsetningu hjá henni í hælgöngunni, en síðustu daga er ég búin að fjarlægja hana án þess að það hafi komið niður á hælgöngunni hjá henni og ég er himinlifandi með það :) En þegar ég er að tala um tvöfalda skipun þá á ég við að þurfa að halda dótinu við bringu/brjóst/maga til að halda athyglinni hjá hundinum og fá hann til að horfa upp á þjálfarann. Ég veit ekkert ljótara en að sjá fólk gera þetta í keppni því mér finnst þetta alltaf benda til slakrar þjálfunnar og að fólk sé að stytta sér leið. Að halda hendinni uppi í keppni er "loforð" við hundinn að á hverri stundu detti niður nammi, hundur sem er kominn á keppnislevel á ekki að þurfa á þessu að halda, og myndi almennilegur dómari alltaf dæma þjálfarann niður, og jafnvel dæma úr keppni fyrir að vera með tvöfalda skipun allan tímann. Þ.a. ég get með sanni sagt að ég er mjög sátt við að vera búin að ná þessu út þ.a. hún gangi flottan hæl og á meðan ég geng eðlilega og horfi fram.

Automatic sit er komið inn hjá henni líka, sem óvæntur bónus. Það sem er svo næst á dagskrá er að bæta inn beygjum, hraðabreytingum, hægri og vinstri skrefum (sem eru víst hluti af LP I, II og III í danmörku), og innkomu á hæl. Ég er mikið búin að vera pæla hvort ég ætli að nota innkomu krókinn á vinstri hlið, eða hvort hún eigi að koma inn á hægri, fara aftur fyrir mig og koma þannig inn á vinstri hlið. Annars er önnur innkoma á hæl sem hún þarf að kunna líka sem ég hef ekkert æft, s.s. ég sný baki í hana, er að ganga í burtu og hún kemur hlaupandi inn á hæl.

Ég er búin að renna aðeins yfir LP reglurnar hérna (LP er hlýðniprófið hérna í DK) og þær eru soldið öðruvísi en ég er vön, og var ég t.d. að sjá að ég þarf líklega að skipta út hælskipunarorðinu úr Hæll yfir í Plads (sem er skipunin að koma inn á hæl og setjast) og Foot/Fuss sem er skipunin að ganga í hælgöngu. Ég er ekkert rosalega sátt við þurfa að breyta skipuninni af því að því minna sem ég þarf að rugla í hausnum á hundinum því betra. Ég hugsa að ég kíki kanski í einhverja tíma hjá hlýðniþjálfara, t.d. til að fá svör við svona spurningum, og líka til að læra að kenna "scent discrimination" sem ég hef aldrei kennt, því "scent discrimination" er atriði á öllum stigum hérna. Annars hefur netið reynst mér óviðjafnanlegur gagnagrunnur þegar kemur að þjálfun og ég hef lesið greinar og séð myndbönd um hvernig fólk hefur verið að kenna þetta, en ég hugsa að ég þurfi bara að hella mér út í það og rekast á veggi hérn og þar. Þannig hef ég tileinkað mér flestar þær aðferðir sem ég nota til þjálfunar á mínum hundum. Það má því eiginlega segja að ég hafi lært alla mína hundaþjálfun af hundunum mínum, og ég hef verið stórkostlega heppin með hundana mína.

Svo hef ég reyndar hugsað mér að taka BH og BHP próf (s.s. hlýðni og sporaþáttinn, eða jafnvel bara hlýðniþáttinn úr IPO prófunum) en þar er hlýðnin rosalega formúleruð, alltaf eins og þjálfarinn gengur prógrammið án þess að prófstjóri stýri honum þ.a. að því leiti er hún auðveldari í þjálfun því það er auðveldara að undibrúa hundinn undir að hlýðniprógramið sé svona og bara svona og ekki mikið um óvæntar uppákomur. En ég þá kemur að sporinu, á ég að kenna BHP/IPO spor eða á ég að einbeita mér að loftlykt og fara jafnvel út í IPO-R sem er leitarhundavinnupróf innan FCI líkt og IPO, og er verið að keppa í hérna í DK. Ég hef reyndar ekki fundið neinn klúbb nálægt mér sem æfir þetta, hef fundið upplýsingar um keppnir á norður Jótlandi en það hjálpar mér nú varla mikið. En leitarþjálfun er bara alveg ferlega skemmtileg !

Þetta eru miklar hugleiðingar, en ekkert sem ég er að fara að gera á næstunni, nema hlýðnin og hundafimin, því eins og er er það alveg feiki nóg fyrir okkur með mínum skóla.

Það er samt soldið fyndið að pæla í því hversu mismunandi hundar eru, sérstaklega með það hvað þeim finnst skemmtilegast. Flugu finnst fátt skemmtilegra en að hlaupa langt eftir boltanum á fullri ferð, togast á við mig þegar hún kom til baka, á meðan að Dís finnst greinilega skemmtilegra að hlaupa styttri vegalengdir og "veiða" boltann meira, grípa hann á ferð og svona. Veit ekki hvort það er feldurinn eða hvað en hún verður fljótar þreytt þegar ég kasta boltanum langt. Þ.a. ég skipti út bolta í bandi fyrir venjulegan bolta og þá fóru hjólin að rúlla, þá fór hún hraðar að fatta að hælganga væri skemmtileg og við fórum að eyða lengri og lengri tíma í göngutúrum í að leika okkur í hlýðni, hælganga krefst ekki beint flókins búnaðar, staðsetningu eða mikils svæðis, einfaldur göngustígur er meira en nóg.

En já, smá eigingjarn póstur, eiginlega bara fyrir mig því ég veit ekki hver á eftir að nenna að lesa hann, en það er ekki hægt að segja að ég hafi ekki varað ykkur við :)

þriðjudagur, nóvember 10, 2009

tvö blogg á mánuði

Ætlar að vera hámarkið mitt, einhverra hluta vegna. Reyndar var andgiftin ekkert að drífa sig í heimsókn til mín á prófatímabilinu en þar sem því er lokið í bili þá er kanski kominn tími til að skella hérna inn nokkrum línum.

Það er svosem kanski ekki frá svo miklu að segja, lífið gengur sinn vanagang hérna og við höfum okkar rútínu sem byggir á lærdóm, lærdóm og svo aðeins meiri lærdóm. Svo förum við Dís í göngutúr á hverjum degi, og yfirleitt tvo, en það er misjafnt hvort einhverjir fylgi okkur eða ekki. Annars er ég búin að fá að vita niðurstöðu úr öðru prófinu sem ég var í, anvendt genatik, sem er eiginlega ræktunar genatík. Skemmtilega áhugaverður kúrs um notkun á ræktunaraðferðum í ræktun á húsdýrum og þess háttar. Prófið var munnlegt og dróg ég ræktun hrossa og kinda og náði að blaðra mig hressilega í gegnum það út frá ræktun á íslenskum hrossum. Niðurstaðan varð svo staðin, þar sem að þetta er einkunnarlaust próf.

Í fyrsta skiptið á æfinni héldum við Valdi upp á Halloween, þ.e.a.s. í þeim skilningi að við fórum í Halloween partý hjá Ebbu og Indriða. Ebba og Guðríður voru búnar að skreyta íbúðina hjá Ebbu "fyrir allan peninginn" og allt leit geðveikislega vel út. Ég var búin að möndlast með búninga handa okkur Valda og við enduðum á því að fara svona.


(fyrir þá sem ekki sjá þá er ég kúrekastelpa og Valdi Scream morðinginn)

Annars hef ég svosem helling sem ég get kjaftað um hundalega séð. Ég skráði Dís á hundasýningu í Herning, þetta var tvöföld sýning og var Dansk Winner sýning á sunnudeginum. Ég kom nokkuð sátt heim, með tvær VG einkunnir í vasanum (hefði alveg viljað fá EX en hún þarf að þroskast aðeins meira) og ótrúlega sátt við hvað Dís sýndi sig fínt og lét það ekkert á sig fá að hanga þarna með mér báða daganna innan um 3500 hunda hvorn daginn í 7 risastórum höllum. Ég er enn ekki búin að átta mig á stærðinni á þessu svæði þar sem við náðum ekki einu sinni að fara inn í allar hallirnar og vorum að ramba inn á nýja staði til að næra okkur á allt fram á síðustu stundu.

En já, dómarnir sem við fengum voru eftirfarandi:

Laugardagur - Dómari: Jörgen Hindse
Stor, middelkraftig, feminin, lidt spinkel underkæbe, god skalle, god öjne og örer, ryggen savner den sidste stramhed, passende benstemmer, passende krop, god pels, træder snævert bag, beveger sig med god skridt, men ryggen giver efter

Sunnudagur - Dómari: Elina Tan-Hietalahti
Trævligt temperement, feminin, bra hoved, udrtyk, örer, bra krop for sin alder, hun rörer sig med meget korte rörelser bagtil, bra hårkvalitet, bra farve

s.s. ágætis dómar. Mér finnst reyndar endalaust fyndið að tveir dómarar skuli segja alveg sitt hvorn hlutinn um hreyfingarnar í henni með tvo daga í röð. En Jörgen Hindse, sem er að mínu mati fjandi góður dómari, var ferlega fyndinn með það að taka eftir því að önnur vígtönninn á henni í neðri kjálka snerti efri góm og sagði mér að ég þyrfti að fylgjast með þessu ef hún fengi særindi undan henni, þ.a.l. kom "lidt spinkel underkæbe" kommentið. Annars var ég alveg við það að missa andlitið við að horfa á það hversu ógeðslega mikið fólk var að grooma hundana sína þarna, poodle groomer hefði verið sáttur við tímann sem fór í að gera hundana ready fyrir hringinn... Ekki alveg minn tebolli.

En helgin fór ekki bara í hundasýningar heldur naut ég líka félagsskapar minna yndislegu "tvíbura", þar sem Elli kom til DK til að fara á sýninguna og Kolla renndi með okkur til Herning. Við skelltum okkur í bílaleigubíl og vorum í samfloti með Eddu og Ívari um sumarhús rétt fyrir utan Herning, og ég hefði sko klárlega verið til í að skipta og búa í þessu sumarhúsi. Það var risastórt og einstaklega hundvænt í þvílíkt sætri sveit. Helgin var í einu orði sagt æðisleg og hana þarf klárlega að endurtaka einhvern daginn.

En núna erum við aftur komin í rútínu, aðeins öðruvísi rútínu reyndar þar sem að ég er heima allan daginn að læra undir próf. Ég er í upplestrarfríi út janúarog hef þrjá mánuði til að læra allt um anatómíu, embriologiu og histologiu. Við Dís ætlum að dunda okkur við það líka að læra meiri keppnis hlýðni og jafnvel að reyna að koma okkur í hundafimi. Ég er að íhuga að setja sýningar á smá pásu í bili þangað til að hún er búin að þroskast aðeins meira og nota tímann frekar í að leika okkur í hundafimi. Okkur finnst það báðum mjög gott plan ! Ekki það að næsta sýning er hvort eð er ekki fyrr en í lok janúar :P Annars var alltaf planið hjá mér að skrá hana á World Dog Show í Herning DK í júní 2010, en miðað við hvað hún var feldLAUS síðasta sumar þá ætla ég allavegana að hinkra með að taka ákvörðun um það hvort við mætum eða ekki.

Annars verð ég að játa það að ég er að kafna mig langar svo mikið á hestbak. Það var reyndar kostur að ég gat eytt öllu sumrinu mínu á hestbaki, þ.a. ég er skárri en ég hefði annars verið, en ég myndi sko ekki kvarta ef ég kæmist í reiðtúr í stóra stóra skógjinum okkar hérna. Valdi er reyndar líklega komin með einhverja smá vinnu við að þjálfa íslenskan hest hérna í skógjinum og við skulum sjá til hvort ég nái ekki að laumast eitthvað á bak þar líka, vá hvað það væri gott plan !

þriðjudagur, október 13, 2009

Að komast í heitt bað

Eiga að vera mannréttindi. Þegar manni er kallt og maður er slappur og ómögulegur, þá er það ekkert eins að fara í einhverja bésvítans sturtu. Það bara lagar ekki mikið, allavegana ekki eins mikið og bað myndi gera ! Ég hef ávalt heitið mér því að næsti staður sem ég bý á skuli hafa baðkar, en nei, ég flakka á milli íbúða sem hafa því miður bara sturtu. Svindl.

En svona að öðru, það er farið að styttast allhressilega í fyrstu prófin á þessu ári, og það eru sko ekkert lítið próf, annar kúrsinn er 21 ESCT eining þ.a. það liggur mikið undir að ég standist hann. Annars hef ég ágætis tilfinningu fyrir honum og hef mikinn áhuga á þessu námsefni (reyndar báðum námsefnunum sem við erum að lesa þar sem að hinn kúrsinn er genatík) þ.a. mér leiðist sko ekki að liggja yfir bókunum.

Dísiskvís er á hálóðaríi núna og er ástleitin og athyglissjúk eftir því. Hún reyndar sýnir það yfirleitt ansi vel að henni finnast hundarnir sem við mætum í göngutúrunum bara ljótir og leiðinlegir þ.a. ég þarf ekki mikið að hafa áhyggjur af því að það hoppi einhver óvart á bak og ég sitji uppi með einhverja kokteila. Annars erum við rosa duglegar að fara út og viðra okkur í skógjinum á hverjum degi og stundum tvisvar á dag. Það virðist svo vera að hafa einhver góð áhrif á vigtina á heimilinu, sem ég skil ekki alveg því þetta er það eina sem ég geri, en hey, ég er sko EKKI að kvarta !

Svo fékk ég alveg netta heimþrá á laugardaginn (eða reyndar pínu meira svona ég sakna Flugu minnar ógeðslega mikið þrá) þ.a. ég eyddi kvöldinu í að setja saman smá myndband af þeim tveimur saman, svona ef ykkur langar að kíkja.


fimmtudagur, október 08, 2009

Ég þarf að vera skemmtilegri

Já ég komst að þeirri undarlegu staðreynd í dag að ég þarf að vera skemmtilegri. Jájá ég má svosem alveg vera skemmtilegri í hinu daglega lífi, en ég er samt að tala um að ég þarf að vera skemmtilegri þegar ég er að þjálfa Dís (sorry mamma, annar hundapóstur en það er svosem ekki svo mikið annað sem ég get verið að blogga um). Við áttum smá "break through" í keppnihæls þjálfun í gær sem ég var rosa sátt við og svo kíktum við í göngutúr "með tilgangi" í dag, þar sem ég áttaði mig á þessu. Ég er ekki nógu skemmtileg. Ég er búin að vera að möndlast í þessu núna síðan við komum út því henni finnst skemmtilegra að vera aðeins of langt frá mér og tekur svona smalafjárhunda takta þar sem hún hleypur hringi í kringum mig í stað þess að stökkva á boltann og bíður eftir því að ég kasti.

Í gær tók ég góða gommu af nammi í vasann, klikker og hund og fór í göngutúr. Allan göngutúrinn verðlaunaði ég nákvæmlega rétta staðsetninu og ekkert annað, og bara þegar hún "óvart" lenti þar sjálf. Ég lokkaði hana aldrei á réttan stað. Hún var afar fljót að fatta þetta og ég var rosalega hamingjusöm með það í gær.

Svo fórum við í göngutúr í dag, og hún var aftur komin í sitt venjulega horf. Hún reyndar er farin að skilja og kunna "automatic sit" en er of langt frá og ekki á réttum stað. Ég settist niður og fór að ígrunda hvað væri málið, hún gerir allt sem ég bið hana um að gera, en það vantar drive og kraft og orku. Ég hef séð þessa orku, þetta drive og þennan kraft sem mig langar í hjá henni, ég hef séð hann þegar hún smalar hrossum, þ.a. ég veit að þetta er þarna. Ég er bara ekki búin að vera ná því fram eins og ég vill. Semsagt feillinn liggur hjá mér en ekki hundinum. Þannig er það reyndar alltaf, feillinn liggur hjá þjálfaranum, ekki hundinum/hestinum.

Þ.a. eftir góðan göngutúr ákvað ég að testa þessa kenningu mína, stoppaði seinna í göngutúrnum á góðum stað og tók aðra æfingu. Núna tók ég upp boltann og hagaði mér eins og meiri bjáni. Þeir sem þekkja til mín þegar ég þjálfa mína hunda vita að ég haga mér nú alveg nógu mikið eins og bjáni þegar ég þjálfa, þ.a. það hefði alveg verið þess virði fyrir fólk að sjá til mín þarna. En viti menn, Dís umturnaðist svona þetta líka að allt í einu var ég kominn með annan hund. Hún kom með miklu betra drive og svaka orku og kom með "behavior" sem ég gat verðlaunað og verðlaunað og verðlaunað. Snilld !

Ég þarf greinilega að fara að "æfa mig í þjálfun" aðeins, Fluga var svo ótrúlega þægilegur hundur í þjálfun að ég þurfti lítið að ýta undir áhuga hjá henni þegar hún var orðin fullorðin. Ég þarf klárlega að leggja mig meira fram við að þjálfa Dís en ég þurfti til að þjálfa Flugu undir hið síðasta, því þegar ég hugsa til baka þá var ég miklu orkumeiri og fíflaðist mun meira í gamla daga þegar Fluga var ung. Þ.a. núna þarf ég að haga mér meira eins og ég gerði í gamla daga ef ég ætla að ná eins miklu út úr múslunni minni og ég get.

mánudagur, október 05, 2009

Og þá kom október

Vá hvað mér finnst tíminn líða hratt, sérstaklega í ljósi þess að ég er að fara í tvö próf í lok þessa mánaðar og svo aftur í janúar...

En haustið hefur farið vel með okkur hérna, sérstaklega þar sem við erum komin í stóra íbúð, búin að mála, pússa og hreinsa þá gömlu og skila henni. Nú er bara að bíða og sjá hvað ég fæ til baka af depositinu mínu því þeir eiga það alveg til að gera allann andskotann við íbúðirnar til að þurfa ekki að endurgreiða depositin, fjandans peningaplokk !

Við Dís skelltum okkur á Copenhagen Winner nú í mánuðinum og okkur gekk ansi vel saman hringnum í hringnum í fyrsta skiptið.



Hún endaði sem þriðja besta tík með fínan dóm (sem ég nenni ekki að standa upp og ná í til að pikka hérna inn, skal gera það seinna). En þetta var fyrsta sýningin okkar hérna úti og ekkert leiðinlegt að ganga svona fínt (í hausnum á mér var ég samt að fara að ná titli, en ég bý nú líka á bleiku skýi, alltaf soldið gaman á bleika skýinu mínu!). En við ætlum að rúlla til Herning í nóvember á síðustu sýningu ársins hjá DKK og hitta fullt af skemmtilegu fólki ! Sjáum til hvernig það fer.

En við erum alveg að verða búin að koma okkur fyrir í nýju íbúðinni og VÁ hvað það er mikill munur, ég er komin með matreiðsluæði allt í einu, farin að baka og elda eins og hin besta húsmóðir. Reyndar kemur jólagjöfin frá mömmu núna síðustu jól sér ansi vel sem var stærsta matreiðslubók sem ég hef séð, með yfir 2000 ítölskum uppskriftum. Ég er svona að fletta í gegnum hana þegar ég gef mér tíma í það og ég er bara ekki frá því að hún kenni manni að matreiða ALLT ! Þ.a. núna ætla ég að læra að matreiða ítalskt. Er með nokkur tilraunardýr sem taka vel í þetta plan mitt.

Svo er næst á dagskrá að koma mér í gang í fiminni. Ég bjó mér til einfalt hopp í göngutúrnum okkar Dísar um daginn og er byrjuð að kenna henni Zik/Zak á vel staðsettu tré á túninu og svo enn í grunnþjálfun á öðru.

En jæja, þangað til næst (og við skulum sjá hvort ég afreki meira en eitt blogg í þessum mánuði, ég lofa engu samt... :Þ)

fimmtudagur, september 10, 2009

Mig vantar hundafimitæki núna !

Þjálfunarandinn er algjörlega kominn yfir mig, og ég er að rótast í að finna mér agility klúbb og svona á svæðinu. Það er einn hérna ekki mjög langt frá mér, en ef ég skil síðuna hjá þeim rétt þá get ég ekki byrjað með "grænann" hund fyrr en í apríl, og fyrir mig er það bara allt of langt þangað til !!!

Við Dís erum samt aðeins að grautast í því að læra nýja hluti, við erum búnar að taka fram sýningarólina og erum að undirbúa okkur undir Kobenhagen Winner sem er eftir eina og hálfa viku, það verður spennandi. Í fyrsta skiptið í langan langan tíma sem ég sýni minn eigin hund !!

Svo erum við að leggja grunn að ýmsum hlýðniæfingum, erum að vinna í hæl, stoppa á göngu, kontakt. En ég er samt að rekast á allt aðra veggi við þjálfun á henni en á Flugu og Sófusi. Kanski er það hitinn hérna úti sem er að spila inn í en hún er mikið fljótari að verða þreytt en t.d. Fluga er. Þetta lagast kanski þegar við erum komin í stærri íbúð og ég get farið að bæta við svona smá trix kennslu innan dyra líka.

En allavegana, smá svona yfirlit, meira bara fyrir mig en fyrir ykkur :

* Hælganga - erum að vinna í réttri staðsetningu, er komin með hugmynd um það hvernig ég bæti hana. Hún er treg að setjast og vill frekar standa, en það er miklu betra þegar við erum með nammi en ekki dót. Innkoma á hæl er hæg og við þurfum að bæta hraðann.

* Stopp - lærði það hrikalega hratt, miklu hraðar en ég átti von á. Er að útfæra það á tvo vegu, annars vegar sem grunn að stopp á göngu, og hins vegar sem grunn að annari æfingu sem er á hæsta level í keppnis hlýðni (innkall með stopp, sitt, og ligg á leiðinni)

* upp á - fara með framfætur upp á hluti, grunnur að trikki sem heitir fíllinn (elephant), þetta var hún búin að læra sem hvolpur, en þetta er þarna enn meira en ári seinna. Ég er að bæta við snúningnum, líka til að kenna henni að hún er með afturfætur sem er hægt að nota og búa til góðan "body awareness"

* hraði - næsta verk mitt er að bæta við responce hraða í stöðu ques, s.s. standa, sitja og liggja. Ætla að gera æfingarnar mjög einfaldar og bara verðlauna hraða. Núna horfir hún á mig eins og hún sé að spyrja "í alvörunni, viltu í alvörunni að ég leggist... ertu ekki að djóka, ég er alveg viss um að þegar þú baðst um þetta síðast varstu bara að djóka". Sit er reyndar orðið miklu betra hjá henni eftir hælæfingar, en ligg þarf að lagast og hún þarf að læra að fara í standa úr sit og ligg.

Þetta er s.s. planið hjá mér í bili. Já og svo að finna mér klúbb, er komin með bunch af síðum sem ég ætla að kíkja á, fann ræktanda að border collie og íslenskum fjárhundi sem titlar hundana sína í hlýðni og fimi og býr hérna rétt hjá mér (ætla að hafa samband við og sjá hvort hún geti bent mér á eitthvað sniðugt á svæðinu) og fleira skemmtilegt.

Annað sem hefur gerst síðan síðast...

Valdi er kominn út, ásamt öllu dótinu okkar, það er allt hérna inn í litlu íbúðinni, í kössum og meðfram veggjum og við bíðum spennt eftir því að fá leyfi til að fara inn í nýju íbúðina, en það er víst enn verið að vinna í henni. Hún verður þá klárlega extra fín þegar við komumst inn, er reyndar verið að setja nýjar skápahurðar þar inni sem er fínt því ég get ekki alveg sagt að þær sem eru núna séu eitthvað sérstaklega fallegar sko. Við getum allavegana með sanni sagt að íbúðin er svakalega troðin !

Svo er skólinn auðvitað byrjaður, ég komin á fullu í lesturinn og lít varla upp úr bókunum nema til að fara út með hundinn að leika. Ég pantaði mér svo anatomiubiblíuna um daginn af netinu, og er enn að bíða eftir því að hún komi hingað heim. Finnst hún reyndar taka soldið langan tíma, en hún er fokk stór og fokk þung og inniheldur ALLT !! Með því að kaupa hana af amazon er ég líklega að spara mér hátt í 800 DKK sem er sko vel þegið því hún er svakalega dýr !!! Allt í allt kostar hún 2500 DKK út í skólabókabúð, sem fer yfir 60 þúsund íslenskar. SEXTÍU ÞÚSUND fyrir bók ! En mér er sagt að þetta sér bara að byrja í bókakostnaði ... fjör !

En það er ýmislegt á prjónunum, þ.a. fylgist með ;)

sunnudagur, ágúst 30, 2009

Long time no see

Vegna nánast algers skorts á bloggþörf í nánast allt sumar, þá held ég að það sé kominn tími til að bæta úr því. Svona eins og þið getið gert ykkur í hugarlund gerðist ótrúlega margt í sumar, og hérna er yfirlit yfir helstu atburði:

* Ég vann og vann og vann af mér rassgatið !

* Eyddi fullt af tíma með vinum og vandamönnum !

* Á von á folaldi undan Óm frá Kvistum, krossa fingur upp á að fá meri

* Kláraði meistaratitla á tvo af "mínum" hundum, þær ISShCH African Sauda og ISShCH Ægishjálms Galdra Þrá

* Sýndi Dís ekki í sumar

* Fékk "lítinn" dana í heimsókn og túrhestaðist með hann um landið

* Keypti mér línuskauta, datt á þeim seinna um daginn, braut á mér olnbogann (eða það vilja sumir læknarnir meina), fór á slysó fjórum dögum seinna og fékk gifs, sem á endanum varð svona þetta líka fallega bleikt !

* Fór í eina almennilega göngu, með Kollu, þegar við gengum á Glym (ganga íþróttadeildarinnar yfir Fimmvörðuhálsinn féll niður vegna ógeðslegs veðurs)

* Kláraði sprautu og undirbúnings pakkann fyrir Dís fyrir útflutning, og tók hana með til Danmerkur þar sem hún er núna orðinn formlega baunalands hundur

Ef ég er að gleyma einhverju, þá endilega bendið mér á það !

Annars er þjálfunarbootcampið hjá Dís alveg að hefjast, sumarið sem átti allt að fara í hundafimi/hlýðni/spora/allskonar þjálfun, fór einungis í hesthúsa og smalaþjálfun. Við komum allar saman svo þreyttar heim eftir hvern dag og engin okkar hafði orku til að djöflast eitthvað meira. Annars erum við Dís að bæta upp fyrir þetta núna, erum mikið duglegar að leika okkur og æfa, svo er bara málið að finna sér agility klúbb og svona :)

En skólinn byrjar aftur hjá mér á morgun, mér finnst það frekar spes tilhugsun, því mér finnst sumarfríið hreinlega hafa verið allt of stutt. Það var reyndar eintóm snilld, en allt of stutt engu að síður.

Fyrir áhugasama þá eru fullt af myndum af sumrinu á galleríinu, svona ef ykkur langar að kíkja. Annars ætla ég að fara og ná mér í mat núna, sé ykkur seinna :P

P.S. Since I've had this question more than once now, if im going to blog in english, I promise you im contemplating it :P

laugardagur, ágúst 01, 2009

Ég nenni ekki að blogga

Þ.a. ef þú ert eitthvað að bíða eftir því að andinn grípi mig, þá verðuru að bíða eitthvað lengur. Ekki það að eitt blogg á heilum mánuði er nú soldið sorglegt, ég veit það, en ég er bara pínu mikið busy. Sé til hvort bloggorka komi yfir mig yfir helgina.

sunnudagur, júlí 19, 2009

Ég er búin að vera í reiðbuxunum síðan ég kom heim

Og ég kann því VEL !

Dagarnir hafa flestir verið með svipuðu móti, mæti eldsnemma í vinnuna, vinn fram á kvöld með skvísurnar mínar með mér, kem heim borða og sef. Ég man ekki hvenær ég fór síðast í venjulegar buxur, eða hafði mig til og gerði mig sæta. En ég er samt sátt, ótrúlega sátt.

Það sem á daga mína hefur drifið undanfarið er m.a. ótrúlega skemtileg hestaferð okkar Albertslunds skvísanna í för með góðum hóp af Hruna-krökkum og nærsveitungum. Ferðin tók allt í allt fjóra daga, og aðeins á kunnulegum slóðum fyrir mig frá gömlum Gullna Hrings dögum hérna í denn. Í ferðinni rifjaðist reyndar upp fyrir mér hversu lofthrædd ég er því vá hvað mér leið illa þegar ég reið meðfram Laxárgljúfrunum, þau eru aðeins of há og hrikaleg ! Myndir úr ferðinni er að finna hér



Leiðarlýsing í stuttu máli var eftirfarandi : Reykjadalur (heima hjá Guðríði) - Jaðar, Jaðar - Svínárnes, (hérna tvöfaldaðist hópurinn) Svínárnes - Helgaskáli, Helgaskáli - Reykjadalur !

En það hefur verið nóg að gera í hestunum, Artemis fæddi folaldið sitt um daginn, undan Aris frá Akureyri, fengum jarpan hest, fallegan og vel bygðan og verður gaman að fylgjast með honum þroskast. Artemis er svo komin undir hest aftur, og í þetta skiptið varð Gaumur frá Auðsholtshjáleigu fyrir valinu. Reyndar ansi miklar líkur á því að það komi aftur jarpt en það er sko ekki verra !

Annars ætlar Þrá Þorra mamma að skjótast undir hest í sumar aftur og hefur væntanlegur biðill verið valinn ! Meira um það síðar. Þ.a. við hjónakornin eigum von á tveimur folöldum næsta sumar, nóg að gera í þessum ræktunarpælingum okkar :)

Ég reyndar upplifði soldið spes um daginn í fyrsta skiptið. Þegar við Valdi fórum að smala mýrina á Álfhólum til að ná í Artemis, þá var ein af uppáhalds merum Söru NÝ köstuð ! Þar kom einnig jarpur hestur sem er albróðir graddans hennar, Dimmis frá Álfhólum.

En hérna eru nokkrar vel valdar af Artemis og nýja folaldinu hennar :)







Annars er ég ekkert að drepast úr orku, þ.a. ég bæti við fleiri fréttum seinna meir :)